Hvað er Blockchain?

Rafmyntin Bitcoin er ekki einungis bara gjaldmiðill, því það má segja að Bitcoin sé í senn gjaldmiðill og dreift (e. decentralized) greiðslukerfi. Greiðslukerfið byggist á nýstárlegri tækni sem kallast blockchain.

En hvað er eiginlega blockchain?

Blockchain, eða bálkakeðja á íslensku, er færsluyfirlit. Nánar tiltekið er það yfirlit yfir allar færslur sem gerðar hafa verið frá upphafi þeirrar myntar sem bálkakeðjan tilheyrir.

Bálkakeðjan er yfirlit yfir allar færslur sem gerðar hafa verið frá upphafi.

Bálkakeðjan hópar færslur saman í keðju af bálkum (e. blocks). Nýjir bálkar verða til við ferli sem kallast gröftur (e. mining). Grafarar keppast um að finna lausn á nokkurs konar stærðfræðiþraut, sem inniheldur nýjar færslur og vísun í seinasta bálka keðjunnar. Takist þeim að finna lausn myndast nýr bálki sem þeir bæta við aftast á bálkakeðjuna, og senda á aðra notendur kerfisins. Allir notendur kerfisins geyma afrit af yfirlitinu, þ.e. af öllum bálkum í keðjunni. Með hverjum bálka myndast síðan ný mynt sem grafararnir eignast.

Þar sem allir notendur kerfisins geyma afrit af bálkakeðjunni, og fá upplýsingar um nýjar færslur um leið og grafarar mynda nýja bálka, þá geta notendurnir fylgst með og staðfest að allar færslur séu lögmætar og ekki sé verið að t.d. “prenta” pening.

Ekkert eitt miðlægt vald stjórnar bálkakeðjunni og því er það undir notendunum sjálfum komið að fylgjast með óheiðarlegum einstaklingum og hópum. Grafararnir sem sjá um að mynda bálkanna gætu til dæmis reynt að mynda meiri mynt en þeir réttilega eiga rétt á. Í því tilfelli er það undir notendum kerfisins komið að vera vakandi fyrir því, og neita að samþykkja bálkann.

Almennt séð þá vita grafarar að það eru litlar sem engar líkur á að þeir komist upp með slík svik, og því reyna þeir þau almennt ekki. Þeir fá nú þegar greitt háar fjárhæðir fyrir það að mynda bálka, og komist upp að þeir hafi reynt að svindla við myndum bálkans þá gera aðrir notendur kerfisins bálkann ógildan, og myndu grafararnir þá verða af myntinni sem þeir hefðu annars fengið.
Það myndi ekki teljast skynsamlegt af þeirra hálfu að taka áhættuna á því að missa af þeirri fjárhæð komist upp um að þeir hafi reynt að svindla á kerfinu. Hin dreifða valdstýring kerfisins kemur í veg fyrir að óprúttnir aðilar geti hagnast, og heldur öllum notendum þess á jöfnum grunni.

Þegar færsla er orðinn hluti af bálkakeðjunni er talað um að hún sé staðfest. Þegar færsla er staðfest er hún óafturkræf, þ.e. hvorki þú né neinn annar getur tekið hana til baka.

Bálkakeðjan gerir þér kleift að stunda viðskipti án milliliða. Það er ekki auðfarið að lýsa því hversu byltingarkennt það getur verið. Í nútíma samfélagi fara öll viðskipti sem innihalda peninga fram með aðkomu milliliða, að reiðufé undanskildu.

Færslum á bálkakeðjunni er ekki hægt að breyta eftir að þær hafa verið staðfestar. Þegar þú færð sendan pening á bálkakeðjunni geturðu verið fullviss um að hann sé þinn, að þú einn hafir aðgang að honum og að enginn geti tekið hann af þér.

Bálkakeðjan gerir þér kleift að stunda rafræn viðskipti án milliliða. Það er ekki auðfarið að lýsa því hversu byltingarkennt það getur verið.

Við hjá Myntkaup trúum því innilega að þessi tækni geti umbylt fjármálageiranum á heimsvísu. Bálkakeðjan hefur eiginleika sem ekki hafa sést áður, eiginleika sem setja völdin í hendur notandans og gerir fólki kleift að stunda viðskipti þvert á landamæri án nokkurra vandkvæða. Í sífellt tengdari veröld þar sem kröfur um einfaldleika, heiðarleika og gagnsæi eru ávallt háværari er bálkakeðjan hreinlega mun öflugri kostur heldur en núverandi fjármálakerfi.

Við hlökkum til að fylgjast með frekari þróun þessarar tækni og einsetjum okkur það markmið að halda áfram að fjalla um hana hér.

Mynd af höfundi

Torfi Karl Ólafsson

Torfi kynntist Bitcoin árið 2017 og hefur síðan þá haft brennandi áhuga á tækninni bakvið rafmyntina. Hann vill kynna fólki fyrir henni og setti því Myntkaup í loftið með það að markmiði að gera Íslendingum kleift að læra um og kaupa bitcoin.