Myntkaup appið
Við höfum verið að vinna hörðum höndum að því að smíða smáforrit fyrir Myntkaup sem mun verða gefið út fyrir bæði Android og iOS snjallsíma.
Stefnan er sett á að koma appinu í loftið fyrir jól og mun appið koma til með að auðvelda þér og öðrum Íslendingum að stunda viðskipti með Bitcoin og fylgjast með stöðunni á eignasafninu þínu í rauntíma.
Þú munt fá póst þegar appið fer í loftið og munt eiga möguleika á því að sækja appið og taka þátt í leik þar sem nokkrir heppnir aðilar verða dregnir út og fá gjafakóða sem hægt verður að nýta til þess að kaupa Bitcoin.
Winklevoss tvíburarnir: Bitcoin á leið í $500,000?
Eineggja tvíburarnir Cameron og Tyler Winklevoss eru hvað þekktastir fyrir að hafa farið í mál við Mark Zuckerberg þar sem þeir sökuðu Zuckerberg um að hafa stolið hugmyndinni að Facebook af þeim. Málið var útkljáð árið 2008 þegar Zuckerberg samþykkti að borga tvíburunum 65,000,000 bandaríkjadollara fyrir að láta málið niður falla.
Tvíburarnir koma meðal annars fyrir í kvikmyndinni The Social Network frá árinu 2010 sem fjallar um sögu samfélagsmiðilsins sívinsæla.
Tvíburarnir eru vel þekktir í heimi rafmynta vegna þess að þeir eiga og reka bandarísku rafmyntakauphöllina Gemini og einnig fyrir það að hafa keypt u.þ.b. 1% af öllu bitcoin í umferð snemma árs 2013 fyrir 11,000,000 bandaríkjadollara.
Nýlega skrifuðu tvíburarnir grein sem hefur farið eins og eldur í sinu um Bitcoin samfélagið á netinu. Í greininni fjalla þeir um hvernig COVID, hömlulaus skuldasöfnun og peningaprentun margra vestrænna ríkja er að fara að leiða til gríðarlegra efnahagslegra vandamála á komandi misserum og hvaða hlutverk Bitcoin mun spila í breyttum heimi.
Við hjá Myntkaupum mælum eindregið með greininni fyrir þá sem hafa áhuga:
Við erum að upplifa ótrúlega tíma í efnahags- og sögulegum skilningi og ljóst er að mikið verður ritað í sögubækurnar um atburði líðandi stundar. Það er nákvæmlega á tímum sem þessum sem tækifærin leynast. Búast má við miklum sviptingum og sveiflum á mörkuðum næstu árin og þá er um að gera að grípa gæsina á meðan hún gefst og veðja á rétta hesta.
Áfram og upp á við! 🚀